Neyslu­venj­ur Vest­ur­landa­búa ógna nátt­úr­unni og þar með til­vist manns­ins. Aug­ljóst er að við kaup­um of mikið. Við skipt­um út not­hæf­um vör­um og fáum okk­ur nýj­ar. Töl­ur um úr­gang fara hækk­andi og stór hluti þess sem við setj­um á nytja­markaði end­ar í land­fyll­ingu. Millistétt­in í heim­in­um fer stækk­andi með aukn­um kröf­um um lífs­gæði. Við ætl­um því að minnka neyslu en mun­um ekki al­veg hætta að kaupa.

Hvernig get­um við sem neyt­end­ur stuðlað að sjálf­bær­ara sam­fé­lagi?

Eitt af þeim skref­um sem hægt er að taka er að versla við minni fyr­ir­tæki í heima­byggð. Þegar við versl­um við minni versl­an­ir, jafn­vel þar sem eig­and­inn stend­ur vakt­ina, erum við að styðja at­vinnu í heima­byggð. Rann­sókn­ir hafa sýnt að þegar við versl­um við minni fyr­ir­tæki (ekki stór­ar alþjóðleg­ar keðjur) þá verður meira af pen­ing­un­um eft­ir í nærsam­fé­lag­inu. Við styðjum þannig við upp­bygg­ingu sam­fé­lags okk­ar með því að styðja frum­kvöðla, hönnuði og/​eða lista­menn. Þegar við ger­um það stuðlum við að aukn­um og fjöl­breytt­ari at­vinnu­mögu­leik­um sem ger­ir fleir­um kleift að búa í og leggja sitt af mörk­um til sam­fé­lags­ins. Auk þess setja minni fyr­ir­tæki oft á tíðum meiri svip á sam­fé­lagið þar sem meira úr­val verður í boði af vöru og þjón­ustu. Ímyndaðu þér t.d. ef við vær­um bara með alþjóðlega keðju kaffi­húsa á Íslandi en ekki fjöl­breytta flóru minni kaffi­húsa (sem er því miður staðan víða í heim­in­um). Einnig standa minni versl­an­ir og þjón­ustuaðilar úr nærsam­fé­lagi frek­ar fyr­ir viðburðum svo sem stutt­um nám­skeiðum, mörkuðum eða öðrum uppá­kom­um. Þessi fyr­ir­tæki eru auk þess lík­legri til að nota aðra vöru eða þjón­ustu úr nærsam­fé­lag­inu og þannig stuðla að enn meiri upp­bygg­ingu svæðis­ins. Þá hafa minni versl­an­ir oft á tíðum hærra þjón­ustu­stig og þjálfa starfs­fólk sitt til að kunna á og skilja vör­una sem er til boða.

Hvernig get­um við nýtt okk­ur þetta til upp­bygg­ing­ar á betra sam­fé­lagi? Fyrsta skref er að spyrja sig; hvernig fyr­ir­tæki vil ég hafa í mínu sam­fé­lagi? Hvers vegna?

Hvaða þjón­usta skipt­ir mig máli? Hvernig at­vinnu­mögu­leika vil ég að sam­fé­lagið bjóði upp á?

Þegar við höf­um leitt hug­ann að þessu get­um við nýtt það þegar við versl­um eða not­um aðra þjón­ustu. Hvort sem við för­um á kaffi­hús, veit­ingastað eða kaup­um aðra vöru. Oft þegar við versl­um erum við að kaupa af vana, við för­um í sömu búðina og gríp­um sömu hlut­ina og við erum vön. Það get­ur e.t.v. verið auðveld­ara að byrja á að hugsa þetta út frá vör­um sem við kaup­um sjaldn­ar og þurf­um því að stoppa og hugsa um hvort sem er. Segj­um sem svo að þér sé boðið í boð eða veislu og að þú vilj­ir gleðja gest­gjaf­ann með góðu súkkulaði. Þarna gefst tæki­færi til að kaupa hand­gert ís­lenskt súkkulaði t.d. í stað ein­hvers er­lends súkkulaðis. Þannig styður þú við ís­lenskt fyr­ir­tæki í eigu frum­kvöðuls sem býr í og bygg­ir upp þitt nærsam­fé­lag. Það sem ég þekki til af slíkri fram­leiðslu á Íslandi eru keypt­ar inn kakóbaun­ir beint af bónda og fær því bónd­inn meira fyr­ir sinn hlut en í margri ann­arri súkkulaðifram­leiðslu. Ef þú vilt fá upp­lýs­ing­ar um fram­leiðsluna ætti starfs­fólk að geta svarað spurn­ing­um því það veit bet­ur hvað það er að selja þegar fram­leiðslan er á staðnum. Þetta er auðvitað bara eitt dæmi af mörg­um um hvernig við get­um auðveld­lega lagt okk­ar af mörk­um að betra og sjálf­bær­ara sam­fé­lagi með því að breyta neyslu­mynstri.

Þetta gild­ir einnig þegar við ferðumst er­lend­is. Ferðamenn geta skipt sköp­um um upp­bygg­ingu borga og sveit­ar­fé­laga með því að huga að því hvar þeir eyða pen­ing­um sín­um. Ertu að gista á stöku hót­eli í eigu ein­hvers sem býr í nærsam­fé­lag­inu eða hjá alþjóðlegri hót­elkeðju? Hvar borðar þú þegar þú ferðast? Við hvaða versl­an­ir versl­arðu er­lend­is?

Vak­inn, gæða- og um­hver­fis­kerfi ferðaþjón­ust­unn­ar á Íslandi, legg­ur áherslu á þetta. Fyr­ir­tæki sem vilja fá vott­un Vak­ans ættu að kaupa vör­ur og þjón­ustu af fyr­ir­tækj­um í heima­byggð þegar ferðast er með ferðamenn um landið, nýta starfsþekk­ingu og starfs­kraft heima­manna þar sem því verður við komið og styðja við upp­bygg­ingu sam­fé­lags­ins á ann­an hátt.

Það er margt sem við get­um gert til að byggja upp sjálf­bær­ara sam­fé­lag og hér eru aðeins tek­in nokk­ur dæmi. En dæm­in sýna að við get­um lagt okk­ar af mörk­um til að byggja upp það sam­fé­lag sem við vilj­um búa í og gefið öðrum sams­kon­ar tæki­færi, okk­ur öll­um til heilla.

Pistill birtur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 3. mars 2019

Hvernig getur þú sem best lagt þitt af mörkum til að samfélagið nái sjálfbærni? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.