Snjólaug Ólafsdóttir umhverfisverkfræðingur Andrými

Sjálf­bærni og sjálf­bær þróun eru hug­tök sem í hug­um margra (ef ekki flestra) eru frek­ar óljós og loðin. Flest­ir átta sig á að þau hafa eitt­hvað að gera með um­hverf­is­mál og tengja þau lausn­um á vanda­mál­um eins og lofts­lags­vand­an­um. Marg­ir tengja sjálf­bærni við sjálfsþurft­ar­bú­skap og telja að við þurf­um að fara með sam­fé­lagið aft­ur til fortíðar til að ná sjálf­bærni, það er sem bet­ur fer mis­skiln­ing­ur sem oft ligg­ur í því hversu lík orðin eru á ís­lenskri tungu.

Sjálf­bærni er vissu­lega tengt um­hverf­is­mál­um órjúf­an­leg­um bönd­um en hug­takið inni­held­ur fleiri þætti.

Það nær til alls sam­fé­lags­ins svo sem fé­lags­mála, vel­ferðar­mála, menn­ing­ar og efna­hags­lífs. Enska orðið yfir sjálf­bærni er „sustaina­ble“ en sögn­in „to sustain“ á ensku þýðir „að viðhalda“. Með sjálf­bærni ætl­um við ein­mitt að viðhalda ein­hverju til lengri tíma. Þannig þarf að huga að lang­tíma­sýn á það sem við vilj­um gera sjálf­bært. Þegar við skoðum sjálf­bærni verk­efna, fram­kvæmda eða starf­semi þá þurf­um við að skoða áhrif til lengri tíma á bæði nátt­úru og sam­fé­lag.

Þegar um sjálf­bæra þróun er að ræða er litið til þriggja meg­in­stoða sem eru

sam­fé­lag, nátt­úra og efna­hag­ur.

Til að gera nokkuð sjálf­bært þarf að hafa all­ar þrjár stoðirn­ar í huga. Ef sjálf­bærni væri koll­ur með þess­ar þrjár meg­in­stoðir fyr­ir fæt­ur, þá yrði hann ekki stöðugur fyr­ir okk­ur að sitja á nema all­ir fæt­urn­ir væru jafn­lang­ir. Ein stoðanna þriggja er tak­mörkuð að stærð þ.e. nátt­úr­an og geta hinar tvær aðeins vaxið fyr­ir til­stuðlan og inn­an tak­marka henn­ar. Því má segja að allt standi og falli með þeim auðlind­um og þjón­ustu sem við fáum frá nátt­úr­unni. Sjálf­bær þróun verður þó ekki nema að einnig sé tekið til­lit til sam­fé­lags- og efna­hags­mála. Þannig geta verk­efni og fram­kvæmd­ir ekki verið sjálf­bær ef þau hafa nei­kvæð áhrif á sam­fé­lagið þrátt fyr­ir að vera „um­hverf­i­s­væn“. Tök­um sem dæmi end­ur­nýj­an­lega orku okk­ar Íslend­inga. Nýt­ing end­ur­nýj­an­legr­ar orku er eitt­hvað sem í hug­um okk­ar er um­hverf­i­s­vænt og þar með sjálf­bært. En end­ur­nýj­an­legt og sjálf­bært er ekki það sama. Í raun er ekki um sjálf­bæra nýt­ingu ork­unn­ar að ræða nema að hægt sé að ganga úr skugga um að nýt­ing henn­ar hafi ekki nei­kvæð áhrif á sam­fé­lagið þar sem hún er nýtt. Sjálf­bær nýt­ing orku­auðlinda þýðir að ork­an er fram­leidd og notuð þannig að það hafi já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið í heild, að hún sé hag­kvæm og hafi ekki nei­kvæð áhrif á nátt­úr­una, til skemmri og lengri tíma litið. Til að ganga úr skugga um þetta hafa verið gerðir svo kallaðir sjálf­bærniv­ís­ar fyr­ir bæði vatns­afls- og jarðhita­virkj­an­ir sem bæði Lands­virkj­un og Orka nátt­úr­unn­ar hafa notað til að meta sjálf­bærni sinna virkj­ana.

Heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna um sjálf­bæra þróun eru 17 mark­mið sem eiga að stuðla að betra lífi og lífs­skil­yrðum fyr­ir allt mann­kyn. Mark­miðin eru samþætt og órjúf­an­leg og mynda jafn­vægi milli hinna þriggja stoða sjálf­bær­ar þró­un­ar. Sem dæmi um mark­mið eru ekk­ert hung­ur, mennt­un fyr­ir alla, jafn­rétti kynj­anna, góð at­vinna og hag­vöxt­ur og aðgerðir í lofts­lags­mál­um. Eins og sjá má eru mark­miðin fjöl­breytt en miða öll að því að gera heim­inn sjálf­bær­an. Sem aft­ur sýn­ir okk­ur að

sjálf­bærni og sjálf­bær þróun gera okk­ur ekki bara um­hverf­i­s­vænni held­ur bæta líf okk­ar á öll­um sviðum um leið og tekið er til­lit til tak­markaðra auðlinda nátt­úr­unn­ar.

Þannig get­ur þú velt því fyr­ir þér þegar þú sérð fjallað um vöru eða þjón­ustu sem sjálf­bæra hvort rétt sé farið með hug­takið; er verið að bæta sam­fé­lag, efna­hag og nátt­úru til framtíðar? Við get­um öll tekið þátt í að gera heim­inn sjálf­bær­ari með því að taka okk­ar skref í að gera sam­fé­lag okk­ar betra, hvort sem það er að stuðla að bættri mennt­un, betri heilsu, auknu jafn­rétti, ábyrgri neyslu eða draga úr kol­efn­is­spori okk­ar. Virðing fyr­ir og góð fram­koma við sam­borg­ar­ana stuðlar líka alltaf að betra sam­fé­lagi og þar af leiðandi sjálf­bærni.

Pistill birtur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. febrúar 2019.

Hvernig getur þú sem best lagt þitt af mörkum til að samfélagið nái sjálfbærni? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.