Snjólaug Ólafsdóttir umhverfisverkfræðingur Andrými

Í daglegu tali fjölmiðla og annarra er oft talað um stríðið eða baráttuna gegn loftslagsbreytingum eða aðra „baráttu“ fyrir bættum umhverfismálum t.d. gegn plasti. Í minni vinnu sem sjálfbærniráðgjafi og sjálfbærnikennari fæ ég oft að heyra „hvernig gengur baráttan?“.

Ég velti því stundum fyrir mér við hverja ég eigi að vera að berjast. Eru lið eða hópar að berjast? Og hvað eru þau þá mörg? Í hvaða liði er ég? og á mitt lið einhverja bandamenn? Ég vil vissulega uppræta hluti eins og fáfræði um sjálfbærni og afneitun á vísindalega sönnuðum staðreyndum. En ég berst ekki fyrir því, ég vinn að því.

Ég veit að við erum öll í sama liðinu, við erum öll á sama skipinu og ef við ætlum að fara að berjast innbyrðis þá munum við og skipið sjálft líða fyrir það.

Hins vegar er ég að taka þátt í verkefni. Þetta er ekki eins manns verkefni heldur eitt vandasamasta verkefni sem mannkynið hefur þurft að takast á við. Hvers vegna er þetta verkefni en ekki barátta? Jú, því stríð eru aldrei sjálfbær.

Ef við skoðum baráttur eða stríð þá einkennast þau af orustum, mannfalli og ofbeldi. Stundum er einhver sem vinnur og einhver sem tapar.

En þegar betur er að gáð þá tapa allir, því að fleira einkennir stríð, eins og ótti, óöryggi, sársauki og orkuleysi. Í stríði skiptir ekkert máli annað en að vinna, allt annað víkur tímabundið og oft er þetta aðeins spurning um hver örmagnast fyrst.

Eftir að stríði líkur tekur við margra ára (jafnvel áratuga) uppbyggingarstarf, heilu þjóðirnar eru skildar eftir með ör á líkömum og í sálum borgaranna, hvort sem þær „unnu“ eða ekki. Hvers vegna ætti nokkur að vilja taka þátt í því?

Ætlum við að „vinna“ loftslagsvandann og sitja örmagna eftir?

Þess vegna tek ég þátt í verkefninu að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Því í verkefnum þá vinnum við sem ein heild, það eru ekki alltaf allir sammála en þá eru hlutir ræddir. Það eru ekki orustur heldur vörður á leiðinni. Þegar vörðum er náð þá má fagna, ná upp orku og vinna svo að næstu vörðu. Ef vörðu er ekki náð má draga sig í hlé og fara svo aftur að teikniborðinu. Þegar unnið er að verkefnum sem heild, ber hver ábyrgð á sínum hluta en fær stuðning frá öðrum. Hugmyndum er kastað upp, sumar góðar, aðrar ekki eins góðar. Í verkefnum prófum við okkur áfram og þegar eitthvað gengur ekki upp reynum við aftur og lærum af mistökunum. Þegar lokamarkmiði verkefna er náð erum við glöð, stolt og ánægð með árangurinn.

Þess vegna tek ég þátt í verkefninu að takmarka áhrif loftslagsbreytinga, af því ég vil vera ánægð með árangurinn ekki sitja örmagna eftir. Ég stefni að því að þegar þessu verkefni verður lokið verði samfélagið betra á alla vegu. Komdu með og taktu þátt í verkefninu, vertu með í liðinu. 

Veistu hvernig þú getur tekið þátt í verkefninu að takmarka áhrif lofslagsbreytinga? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.