Grænir leiðtogar. Þú skiptir máli.

Leiðtoganámskeið fyrir þátttakendur Grænna skrefa.

Um tvær gerðir af námskeiði er að ræða – fyrir starfsfólk hjá stofnunum ríkisins annarsvegar og starfsfólk hjá starfsstöðvum Reykjavíkurborgar hins vegar.

Á hinum fjölmörgu stofnunum og starfsstöðvum ríkis og borgar eru að verða til nýir leiðtogar í umhverfismálum, það er starfsfólkið sem heldur utanum innleiðingu Grænna skrefa á sínum vinnustað. Á þessu námskeiði förum við yfir hvað það þýðir að vera leiðtogi í umhverfismálum, hvaða máli það skiptir fyrir ríki, borg og samfélagið í heild að hafa leiðtoga í umhverfismálum.

Hvaða máli skiptir að slökkva ljósin, versla umhverfisvottaðar vörur eða hvetja starfsfólk til að hjóla í vinnuna? Við munum varpa ljósi á heildarmyndina, mikilvægi Grænna skrefa fyrir loftslagsmál, hringrásarhagkerfið og þróun samfélagsins í átt að sjálfbærni.

Á námskeiðinu er fjallað um:

  • Hvað það er að vera leiðtogi og hvernig við eflum okkur sem slíkir
  • Loftslagsbreytingar, hvað er að gerast og hvernig okkar aðgerðir skipta máli
  • Hringrásarhagkerfið, um hvað það snýst og hvernig við tökum þátt
  • Tenging Grænna skrefa við framtíðarmyndina í sjálfbærni og loftslagsmálum
  • Umhverfisvottanir, hvað er hvað, hverjar eru bestar og hvernig við þekkjum raunverulegar vottanir frá grænþvotti

Ávinningur þátttakenda

  • Aukinn skilningur á þeim umhverfisvanda sem heimurinn á við í dag og á þeim lausnum sem verið er að innleiða á alþjóðavettvangi og á Íslandi
  • Skilningur á tilgangi Grænna skrefa og hvernig þau hafa áhrif á stóru myndina
  • Öryggi í leiðandi hlutverki á vinnustaðnum við innleiðingu Grænna skrefa
  • Skýrari sýn á hvernig leiðtogi þátttakandi vill vera

Um kennarann

Dr. Snjólaug Ólafsdóttir er umhverfisverkfræðingur, sjálfbærni markþjálfi og fyrirlesari. Snjólaug hefur víðtæka reynslu varðandi sjálfbærni fyrirtækja og einstaklinga. Hún aðstoðar við stefnumótun umhverfis- og sjálfbærnimála, innleiðingu verkefna og mótun aðgerðaáætlana með fyrirtækjum og stofnunum. Snjólaug hefur kennt Sjálfbærni í Háskóla Reykjavíkur og Háskóla Íslands og ýmis námskeið og vinnustofur varðandi sjálfbærni í fyrirtækjum og stofnunum.

Snjólaug hefur viðamikla menntun á sínu sérsviði, hún er með doktorsgáðu í umhverfisverkfræði en hefur einnig lagt áherslu á stjórnun og leiðtogafræði. Hún lauk vottuðu markþjálfanámi 2017.

Lesa meira um dr. Snjólaugu Ólafsdóttur.

Umsögn um námskeiðið Grænir leiðtogar

“Við fengum Snjólaugu til að halda stutt en yfirgripsmikið námskeið fyrir okkur sem stöndum að Grænum skrefum í starfsemi Reykjavíkurborgar, með það í huga að efla græna leiðtoga. Námskeiðið var allt í senn góð fræðsla um stöðu umhverfismála í dag og hagnýt verkfæri fyrir leiðtoga framtíðarinnar. Snjólaug var ekkert að flækja hlutina heldur kom efninu frá sér á léttan og skemmtilegan hátt og umræður voru líflegar. Efni námskeiðsins hentaði öllum vel, hvort sem það voru starfsmenn með reynslu af að vinna í umhverfismálum eða nýgræðingar, og það dýpkaði áhuga okkar og skilning á málefninu. Allir þátttakendur voru mjög sáttir og ánægðir. Ég mæli hiklaust með Snjólaugu og hennar námskeiði.”

Hildur Sif Hreinsdóttir
verkefnisstjóri Grænna skrefa hjá Reykjavíkurborg

Skráning