Snjólaug Ólafsdóttir sjálfbærniráðgjafi Andrými
Snjólaug Ólafsdóttir sjálfbærniráðgjafi Andrými

Ég heiti Snjólaug Ólafsdóttir og er doktor í umhverfisverkfræði frá Háskóla Íslands og með BS gráðu í efnafræði frá sama skóla. Ég valdi námið sem ég fór í af því að ég vildi kynnast umhverfinu og auka skilning minn og annarra á því. Ég fór í efnafræði til að læra betur um umhverfismál, og síðan í umhverfisverkfræðina í framhaldinu. Í náminu lagði ég áherslu á endurnýjanlega orku og loftgæði og eyddi miklum tíma í að hugsa eins og gasmólíkúl.

Þegar ég útskrifaðist fannst mér nóg komið af því að hugsa bara um agnir og hvernig þær hegða sér, ég vildi leggja áherslu á hvernig náttúran hegðar sér í heild og hvernig maðurinn hegðar sér innan hennar. Ég sá aldrei fyrir að ég myndi síðan velja þennan vinkil, af því að fyrst ætlaði ég í rannsóknirnar, í akademíuna og allt það. Svo bara einhversstaðar á leiðinni kviknaði þessi áhugi á fólki. Ég áttaði mig á því að þetta verður ekki tekið í sundur: fólk og umhverfi.

Þegar við tölum um sjálfbæra þróun þá er verið að ræða um þrjár megin stoðir hennar: samfélag, hagkerfi og náttúru. Náttúran er þarna takmarkandi þáttur og við þurfum að læra að taka tillit til hennar því hún getur ekki tekið tillit til okkar, en við erum líka náttúra. Við höfum líka takmarkanir og mér finnst mikilvægt að við viðurkennum það og tökum tillit til þess. Það eru gerðar alltof miklar kröfur til þess að einstaklingar “hámarki afköst” á öllum sviðum. Sem sést vel á fréttum af álagi og kulnun. Það er það sem er svo gott við sjálfbærni, margir halda að við þurfum að fórna einhverju fyrir sjálfbærni en í raun erum við að græða lífsgæði þegar við förum að taka tillit til náttúrunnar og okkar sjálfra.

Þessar hugsanir mínar um náttúru og fólk varð til þess að ég fór að halda fyrirlestra og fræðslu um umhverfismál. Áherslu minni á jákvæðni, samvinnu og að vera maður sjálfur var vel tekið svo að ég hélt áfram að búa til og byggja utanum þá áherslu. Í dag fer ég svo í fyrirtæki, fræði um ýmis umhverfismál og sjálfbærni almennt, aðstoða með stefnumótun, markmið og aðgerðaráætlanir. Ég vinn með fyrirtækinu í heild, teymum og deildum þannig að allir séu að taka þátt og skilji út á hvað vinnan gengur og tilhvers verið er að fara í breytingar.

Að setja stefnu í sjálfbærni og/eða samfélagsábyrgð kallar á breytta vinnuferla og þess vegna er mikilvægt að fræða starfsfólk um tilgang þess og að fá fram þeirra hugmyndir. Þó ég titli mig sjálfbærniráðgjafa þá kem ég ekki og segi “gerðu þetta, gerðu hitt” heldur frekar að kenna hugmyndafræðina, kenna hugsunina, koma skilningnum að, svo fyrirtækið og starfsfólk þess geti sjálft ákveðið hvert þau vilja fara til framtíðar. Það gefur mun betri niðurstöðu á skemmri tíma, því eins og fram hefur komið frá Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, þá höfum við ekki mikinn tíma.

Starfsferill

2017 – Háskólinn í Reykjavík – Stundakennari

2016 og áfram – Andrými sjálfbærnisetur – Sjálfbærniþjálfi

Fyrirlestrar og námskeið, stefnumótun og innleiðing og stuðningur fyrir sjálfbærnifulltrúa og sjálfbærniteymi fyrir ýmis fyrirtæki og félagasamtök. Samstarfsaðilar eru m.a.

2014-2015 – Orka Náttúrunnar (ON)  – Umhverfisverkfræðingur.

2012- 2014 – Orkuveita Reykjavíkur – Doktorsnemi í umhverfisverkfræði.

2011-2015  – 365 Miðlar, Stöð2 – Veðurfréttamaður.

2011-2012 –  Mannvit – Umhverfisverkfræðingur.

Umfjöllun

Lestu meira: umfjöllun um sjálfbærni, loftslagsmál, samfélagslega ábyrgð og fleiri brýn málefni sem Snjólaug verið fengin í viðtöl í fjölmiðlum.