Flest erum við orðin meðvituð um loftslagsvandann og viljum forðast þær geigvænlegur afleiðingar sem hamfarahlýnun mun hafa í för með sér. Mikið er rætt um lausnir, keyra minna, kaupa minna, nýta betur, skipta úr einu í annað betra.

Við notum orku og tíma til að forðast það sem við viljum ekki, en höfum við tekið okkur andrými til að átta okkur á hvað við sannarlega viljum?

Þrjár meginstoðir
Í sjálfbærri þróun eru þrjár megin stoðir: umhverfi, samfélag og efnahagur.

Þegar við sjáum framtíðina fyrir okkur sem einstaklingar, fyrirtæki eða samfélag, ættum við að taka tillit til allra þriggja stoða til lengri tíma. Við getum ekki breytt til betri vegar í einni en látið aðra gjalda tilfinnanlega fyrir. Til dæmis er gott að skipta úr plasti í pappa en ef starfsfólk fær ekki greitt samkvæmt kjarasamningum þá líður samfélagið fyrir. Þess vegna skiptir máli að nota þessar stoðir þegar við setjum stefnuna.

Framtíðarsýn okkar ætti ekki bara að vera umhverfisvæn, hún ætti að vera sjálfbær. Hvar sjáum við okkar stað í sjálfbæru samfélagi? Þetta eru mörg fyrirtæki og stofnanir þegar að gera með því að spegla sig í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Samfélagið er að breytast hratt og við getum meðvitað og í sameiningu breytt því í það samfélag sem við viljum búa í. Þar skipta allir máli, einstaklingar, hið opinbera, fyrirtæki stór og smá. Sjálfbærni mun ekki aðeins sporna við afleiðingum hlýnandi loftslags, heldur einnig skapa öruggt og mannvænt samfélag.

Skýr stefna mikilvæg
Öll verk verða léttari þegar við vitum hvert við erum að stefna og þegar við sjáum árangur. Þess vegna er auðveldara að kaupa minna þegar við höfum ákveðið hvað við þurfum að kaupa. Það er auðveldara að leggja okkar af mörkum sem einstaklingar eða fyrirtæki þegar við vitum hvað skiptir okkur máli og hvað ekki.

Þegar við vitum hvað við viljum minnkar öll sóun, hvort sem er á auðlindum, tíma eða orku því við einbeitum okkur að kjarnanum. Á sama hátt verður auðveldara að bjarga heiminum um leið og við sköpum nýjan, þennan sem við viljum sjá, búa í og leggja til.

Þó að verkið verði auðveldara þýðir það ekki að það verði auðvelt. Auðvelt er heldur ekki það sama og gefandi eða skemmtilegt, það sem er erfitt getur verið endurnærandi. Við þurfum að komast yfir ákveðinn þekkingarþröskuld, fá nýjan skilning og viðurkenna að margt sem við höfum „alltaf gert“ þarf að breytast. Það er erfitt.

Við þurfum líka að finna nýjar leiðir til að gera gamla og nýja hluti en það þýðir ekki að við komumst ekki á leiðarenda. En til þess að komast þangað þurfum við að vita hvert við erum að fara. Eins og kötturinn sem Lísa hitti í Undralandi sagði þá skiptir engu máli hvaða leið þú velur ef þú veist ekki hvert þú ert að fara.

Ákveðum okkar framtíðarsýn sem einstaklingar, vinnustaðir og samfélag. Vinnum að sjálfbæru samfélagi, til hins betra fyrir umhverfi, aðra jarðarbúa og þig. Það er skylda sem ber umbunina í sjálfri sér.

Pistill birtur í Desemberfréttum Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð

Vilt þú marka þér þína stefnu?

Ef þú hefur áhuga á að stíga næstu skref á vegferð þinni, þá gæti námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan verið eitthvað fyrir þig.
Ef þinn vinnustaður er á leiðinni að marka sína stefnu í sjálfbærnimálum getið þið fengið aðstoð við að setja sjálfbærnistefnu.