Frá námskeiðinu Sjálfbærni og hamingjan með Snjólaugu Ólafsdóttur

Hver eru tengsl sjálfbærni og hamingju? Svarið við þeirri spurningu stendur mér nærri. Ég er sannfærð um að þetta tvennt sé tengt órjúfanlegum böndum.

Við getum ekki verið óhamingjusöm og sjálfbær,

við getum ekki einusinni verið svona la la á hamingjuskalanum og sjálfbær. Leifðu mér að útskýra.

Sjálfbærni hefur þrjár megin stoðir: náttúru, samfélag og efnahag. Þegar við verðum sjálfbær, sem einstaklingar, fyrirtæki eða samfélag þurfum við að taka tillit til allra þessara stoða og við þurfum að taka tillit til þeirra til lengri tíma. Það er ekki nóg að spyrja „er þetta gott fyrir umhverfi, samfélag og efnahag núna?“ heldur þarf að spyrja sig „getur þetta gengið svona til framtíðar? Eða mun eitthvað undan láta þegar fram líður?“. Við getum ekki alltaf svarað þessum spurningum en við þurfum að vera meðvituð um það ef við vitum ekki svörin og halda þeim lifandi þar til við getum það.

Hamingja – eins og ég skilgreini hana – er líka hugsuð til lengri tíma eins og sjálfbærnin.

Þegar ég segi hamingja þá er ég ekki að tala um gleði. Gleði getur fylgt ánægjustundum, að fá óvæntan gest, fara á skíði eða vinna í lottó getur fylgt mikil gleði en hún endist ekki til lengri tíma. Hamingja hins vegar er til lengri tíma, hún er grunnástand okkar. Hamingjan fylgir okkur eins og góður vinur yfir hæðir lífsins og ofaní dýpstu dali. Hamingja gerir gleðistundirnar innilegri og lengri og dempar þær slæmu. Þegar hún er ekki til staðar fylgir tómleiki okkur eins og vofa, situr á okkur og minnir á sig reglulega. Gleðistundir verða styttri og erfið tímabil verða lengri og erfiðari.

Vanlíðan er ekki sjálfbær, hvorki fyrir einstaklinginn né samfélagið. Ef þú hugsar til baka til tíma þar sem var mikið álag eða vanlíðan, hversu mikið hugsaðirðu um að flokka? Kaupa umbúðarlaust eða umhverfisvottað? Hugsaðirðu til barnanna sem saumuðu pallíetturnar á vörurnar sem þú keyptir? Nei? Ekki ég heldur.

Til að verða sjálfbært samfélag þurfum við einstaklinga sem líður vel, vilja gefa af sér til samfélagsins og hafa samkennd með mönnum og málleysingjum. Við þurfum umhverfi sem nærir nýjar hugmyndir og lausnir. Við þurfum sjálfstraust til að tala saman og deila reynslu. Við þurfum að hlusta dýpra, næra sannleikann, treysta öðrum og treysta okkur sjálfum til að gera okkar besta. Við þurfum að bera ábyrgð á því sem er okkar og ætlast til þess af öðrum að þau geri slíkt hið sama. Þegar samfélagið verður sjálfbærara verður það mannlegra, það tekur tillit til okkar um leið og það tekur tillit til náttúrunnar.

Þetta árið hefur meðvitund um loftslagsáhrif og önnur umhverfismál aukist gríðarlega í samfélaginu. Ég og aðrir sérfræðingar í umhverfismálum höfum fundið mikinn mun á samfélaginu hvað þetta varðar síðustu ár en nú í ár varð sprenging. Fólk er leitandi og spyrjandi, það vill fá að vita hvað það getur gert. Þar sem ég hef flultt fræðsluerindi og haldið námskeið um sjálfbærni hef ég fengið spurningar á borð við: „Hvað er það stærsta sem ég get gert? Hvað skiptir mestu máli að gera?“ „Geturðu ekki bara komið með lista? Ég vil bara gera það sem er rétt.“ Þessar spurningar eru skiljanlegar, við erum alin upp í samfélagi þar sem eitt er rétt og annað er rangt, þannig „meikar lífið sens“ en það besta við sjálfbærni og hamingjuna er að það er ekkert eitt rétt svar.

Öll þurfum við að gefa okkur andrými til að ákveða hvað hamingja þýðir fyrir okkur og hvernig við getum best stuðlað að sjálfbærni

okkar sjálfra og samfélagsins alls. Það er það sem við gerum á námskeiðinu Sjálfbærni og hamingjan.

Vilt þú auka eigin hamingju um leið og þú tekur skref í átt að sjálfbærni? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.