Hvað er það fyrsta sem þér dett­ur í hug þegar þú heyr­ir orðið sóun? Gæti það verið tengt fatnaði sem hægt er að nýta bet­ur, mat, umbúðum, einnota plasti, kaffi í plast- eða ál­hylkj­um eða álíka? Bein sóun á nýt­an­leg­um vör­um er sóun á auðlind­um jarðar.

En fleira er sóun en bein vannýt­ing á hrá­efn­um.

Að vafra á face­book í klukku­tíma get­ur verið sóun á tíma og hug­ar­ró, að sitja yfir seríu á Net­flix langt fram eft­ir nóttu get­ur verið sóun á dýr­mæt­um svefn­tíma. Hins veg­ar get­ur klukku­tími á face­book verið góð leið til að fylgj­ast með því sem er að ger­ast í hjá vin­um og vanda­mönn­um ef maður hef­ur ekki gefið sér tíma til þess lengi. Eins get­ur það að hanga yfir Net­flix gefið kær­komna hvíld þegar maður ligg­ur í flensu.

Það sem er sóun hjá ein­um geta verið lífs­gæði hjá öðrum.

Fyr­ir veg­an­ist­ann er kjöt, mjólk, dúnn og leður al­gjör sóun og óþarfi. Fyr­ir marg­an sæl­ker­ann er þetta stór hluti af lífs­gæðum hans og hjá mörg­um stór hluti menn­ing­ar okk­ar. Annað dæmi væri skraut eins og blöðrur og glimmer sem er til­gangs­laus sóun fyr­ir suma en svo eru aðrir sem elska að skreyta og gera sér glaðan dag ein­mitt með því.

Við þurf­um hins veg­ar að vera meðvituð um hvað skipt­ir okk­ur máli og hvað ekki. Hvenær er ég að sóa og hvenær ekki? Allt sem við ger­um og skipt­ir okk­ur máli ætt­um við að fram­kvæma á sem best­an hátt. Til dæm­is ef ég ætlaði að vera með blöðrur í af­mæl­inu mínu þá myndi ég passa að hafa ekki of marg­ar, ekk­ert hel­í­um (sem er tak­mörkuð auðlind) og sjá til þess að það færi allt í ruslið (eða end­ur­vinnsl­una) en endaði ekki í nátt­úr­unni eft­ir par­tíið.

Auðlind­ir jarðar eru það sem við not­um til að borða, stunda áhuga­mál, sinna fjöl­skyldu, vinna, lifa. Þær eru tak­markaðar en góðu frétt­irn­ar eru þær að við þurf­um ekki eins mikið af þeim og við erum að nota.

Þegar við not­um hluti sem gefa okk­ur ekk­ert erum við að sóa auðlind­um.

Til dæm­is þegar við pín­um eitt­hvað í okk­ur sem ein­hver sagði að væri hollt en okk­ur finnst vont, þá erum við að sóa auðlind­um (ekki þegar við þurf­um að breyta um mataræði af heilsu­fars­leg­um ástæðum!). Þegar við kaup­um eitt­hvað af því að ein­hver ann­ar sagði að það væri flott en njót­um þess ekki að nota það eða hafa það á heim­il­inu þá erum við að sóa auðlind­um. Við erum ekki öll eins og ætt­um ekki að vera það.

Þegar við vilj­um öll nota sömu auðlind­irn­ar set­ur það um­hverf­is­leg­an þrýst­ing á jörðina okk­ar. Sem dæmi er þegar við stimpl­um ein­hverja fæðu sem „of­ur­fæði“ og vilj­um þá öll borða enda­laust af henni, eins og avoca­do. Eft­ir­spurn­in eft­ir þeim ávexti hef­ur auk­ist svo gríðarlega að farið er að ryðja regn­skóga til að rækta þá. Þess vegna ætt­um við að nota þær auðlind­ir sem skipta okk­ur máli en sleppa þeim sem skipta minna máli og dreifa þannig „auðlinda-álag­inu“ með fjöl­breytt­ari rækt­un o.s.frv.

Gef­um okk­ur and­rými til að átta okk­ur á hver við erum og hvað skipt­ir okk­ur máli, svo við get­um sleppt óþarfa, því óþarfi er sóun. Þess vegna ætt­um við að hlusta á aðra, læra og skilja hvað skipt­ir þá máli í stað þess að dæma um hvað sé óþarfi hjá þeim. Tök­um sam­talið, lær­um hvert af öðru, ber­um virðingu fyr­ir aðstæðum, áhuga­mál­um og per­sónu­leik­um annarra. Víkk­um sjón­deild­ar­hring­inn en

vit­um hver við erum og hvað skipt­ir okk­ur máli.

Þannig minnk­um við sóun á hrá­efn­um, á tíma, á okk­ar per­sónu­legu orku, á auðlind­um.

Pistill birtur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. mars 2019.

Veistu hvað skiptir þig máli og hvenær þú ert að sóa og hvenær ekki? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.