Neysluvenjur Vesturlandabúa ógna náttúrunni og þar með tilvist mannsins. Augljóst er að við kaupum of mikið. Við skiptum út nothæfum vörum og fáum okkur nýjar. Tölur um úrgang fara hækkandi og stór hluti þess sem við setjum á nytjamarkaði endar í landfyllingu. Millistéttin í heiminum fer stækkandi með auknum kröfum um lífsgæði. Við ætlum því að minnka neyslu en munum ekki alveg hætta að kaupa.
Hvernig getum við sem neytendur stuðlað að sjálfbærara samfélagi?
Eitt af þeim skrefum sem hægt er að taka er að versla við minni fyrirtæki í heimabyggð. Þegar við verslum við minni verslanir, jafnvel þar sem eigandinn stendur vaktina, erum við að styðja atvinnu í heimabyggð. Rannsóknir hafa sýnt að þegar við verslum við minni fyrirtæki (ekki stórar alþjóðlegar keðjur) þá verður meira af peningunum eftir í nærsamfélaginu. Við styðjum þannig við uppbyggingu samfélags okkar með því að styðja frumkvöðla, hönnuði og/eða listamenn. Þegar við gerum það stuðlum við að auknum og fjölbreyttari atvinnumöguleikum sem gerir fleirum kleift að búa í og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Auk þess setja minni fyrirtæki oft á tíðum meiri svip á samfélagið þar sem meira úrval verður í boði af vöru og þjónustu. Ímyndaðu þér t.d. ef við værum bara með alþjóðlega keðju kaffihúsa á Íslandi en ekki fjölbreytta flóru minni kaffihúsa (sem er því miður staðan víða í heiminum). Einnig standa minni verslanir og þjónustuaðilar úr nærsamfélagi frekar fyrir viðburðum svo sem stuttum námskeiðum, mörkuðum eða öðrum uppákomum. Þessi fyrirtæki eru auk þess líklegri til að nota aðra vöru eða þjónustu úr nærsamfélaginu og þannig stuðla að enn meiri uppbyggingu svæðisins. Þá hafa minni verslanir oft á tíðum hærra þjónustustig og þjálfa starfsfólk sitt til að kunna á og skilja vöruna sem er til boða.
Hvernig getum við nýtt okkur þetta til uppbyggingar á betra samfélagi? Fyrsta skref er að spyrja sig; hvernig fyrirtæki vil ég hafa í mínu samfélagi? Hvers vegna?
Hvaða þjónusta skiptir mig máli? Hvernig atvinnumöguleika vil ég að samfélagið bjóði upp á?
Þegar við höfum leitt hugann að þessu getum við nýtt það þegar við verslum eða notum aðra þjónustu. Hvort sem við förum á kaffihús, veitingastað eða kaupum aðra vöru. Oft þegar við verslum erum við að kaupa af vana, við förum í sömu búðina og grípum sömu hlutina og við erum vön. Það getur e.t.v. verið auðveldara að byrja á að hugsa þetta út frá vörum sem við kaupum sjaldnar og þurfum því að stoppa og hugsa um hvort sem er. Segjum sem svo að þér sé boðið í boð eða veislu og að þú viljir gleðja gestgjafann með góðu súkkulaði. Þarna gefst tækifæri til að kaupa handgert íslenskt súkkulaði t.d. í stað einhvers erlends súkkulaðis. Þannig styður þú við íslenskt fyrirtæki í eigu frumkvöðuls sem býr í og byggir upp þitt nærsamfélag. Það sem ég þekki til af slíkri framleiðslu á Íslandi eru keyptar inn kakóbaunir beint af bónda og fær því bóndinn meira fyrir sinn hlut en í margri annarri súkkulaðiframleiðslu. Ef þú vilt fá upplýsingar um framleiðsluna ætti starfsfólk að geta svarað spurningum því það veit betur hvað það er að selja þegar framleiðslan er á staðnum. Þetta er auðvitað bara eitt dæmi af mörgum um hvernig við getum auðveldlega lagt okkar af mörkum að betra og sjálfbærara samfélagi með því að breyta neyslumynstri.
Þetta gildir einnig þegar við ferðumst erlendis. Ferðamenn geta skipt sköpum um uppbyggingu borga og sveitarfélaga með því að huga að því hvar þeir eyða peningum sínum. Ertu að gista á stöku hóteli í eigu einhvers sem býr í nærsamfélaginu eða hjá alþjóðlegri hótelkeðju? Hvar borðar þú þegar þú ferðast? Við hvaða verslanir verslarðu erlendis?
Vakinn, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar á Íslandi, leggur áherslu á þetta. Fyrirtæki sem vilja fá vottun Vakans ættu að kaupa vörur og þjónustu af fyrirtækjum í heimabyggð þegar ferðast er með ferðamenn um landið, nýta starfsþekkingu og starfskraft heimamanna þar sem því verður við komið og styðja við uppbyggingu samfélagsins á annan hátt.
Það er margt sem við getum gert til að byggja upp sjálfbærara samfélag og hér eru aðeins tekin nokkur dæmi. En dæmin sýna að við getum lagt okkar af mörkum til að byggja upp það samfélag sem við viljum búa í og gefið öðrum samskonar tækifæri, okkur öllum til heilla.
Pistill birtur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 3. mars 2019
Hvernig getur þú sem best lagt þitt af mörkum til að samfélagið nái sjálfbærni? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.