Sjálfbærni og sjálfbær þróun eru hugtök sem í hugum margra (ef ekki flestra) eru frekar óljós og loðin. Flestir átta sig á að þau hafa eitthvað að gera með umhverfismál og tengja þau lausnum á vandamálum eins og loftslagsvandanum. Margir tengja sjálfbærni við sjálfsþurftarbúskap og telja að við þurfum að fara með samfélagið aftur til fortíðar til að ná sjálfbærni, það er sem betur fer misskilningur sem oft liggur í því hversu lík orðin eru á íslenskri tungu.
Sjálfbærni er vissulega tengt umhverfismálum órjúfanlegum böndum en hugtakið inniheldur fleiri þætti.
Það nær til alls samfélagsins svo sem félagsmála, velferðarmála, menningar og efnahagslífs. Enska orðið yfir sjálfbærni er „sustainable“ en sögnin „to sustain“ á ensku þýðir „að viðhalda“. Með sjálfbærni ætlum við einmitt að viðhalda einhverju til lengri tíma. Þannig þarf að huga að langtímasýn á það sem við viljum gera sjálfbært. Þegar við skoðum sjálfbærni verkefna, framkvæmda eða starfsemi þá þurfum við að skoða áhrif til lengri tíma á bæði náttúru og samfélag.
Þegar um sjálfbæra þróun er að ræða er litið til þriggja meginstoða sem eru
samfélag, náttúra og efnahagur.
Til að gera nokkuð sjálfbært þarf að hafa allar þrjár stoðirnar í huga. Ef sjálfbærni væri kollur með þessar þrjár meginstoðir fyrir fætur, þá yrði hann ekki stöðugur fyrir okkur að sitja á nema allir fæturnir væru jafnlangir. Ein stoðanna þriggja er takmörkuð að stærð þ.e. náttúran og geta hinar tvær aðeins vaxið fyrir tilstuðlan og innan takmarka hennar. Því má segja að allt standi og falli með þeim auðlindum og þjónustu sem við fáum frá náttúrunni. Sjálfbær þróun verður þó ekki nema að einnig sé tekið tillit til samfélags- og efnahagsmála. Þannig geta verkefni og framkvæmdir ekki verið sjálfbær ef þau hafa neikvæð áhrif á samfélagið þrátt fyrir að vera „umhverfisvæn“. Tökum sem dæmi endurnýjanlega orku okkar Íslendinga. Nýting endurnýjanlegrar orku er eitthvað sem í hugum okkar er umhverfisvænt og þar með sjálfbært. En endurnýjanlegt og sjálfbært er ekki það sama. Í raun er ekki um sjálfbæra nýtingu orkunnar að ræða nema að hægt sé að ganga úr skugga um að nýting hennar hafi ekki neikvæð áhrif á samfélagið þar sem hún er nýtt. Sjálfbær nýting orkuauðlinda þýðir að orkan er framleidd og notuð þannig að það hafi jákvæð áhrif á samfélagið í heild, að hún sé hagkvæm og hafi ekki neikvæð áhrif á náttúruna, til skemmri og lengri tíma litið. Til að ganga úr skugga um þetta hafa verið gerðir svo kallaðir sjálfbærnivísar fyrir bæði vatnsafls- og jarðhitavirkjanir sem bæði Landsvirkjun og Orka náttúrunnar hafa notað til að meta sjálfbærni sinna virkjana.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru 17 markmið sem eiga að stuðla að betra lífi og lífsskilyrðum fyrir allt mannkyn. Markmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli hinna þriggja stoða sjálfbærar þróunar. Sem dæmi um markmið eru ekkert hungur, menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, góð atvinna og hagvöxtur og aðgerðir í loftslagsmálum. Eins og sjá má eru markmiðin fjölbreytt en miða öll að því að gera heiminn sjálfbæran. Sem aftur sýnir okkur að
sjálfbærni og sjálfbær þróun gera okkur ekki bara umhverfisvænni heldur bæta líf okkar á öllum sviðum um leið og tekið er tillit til takmarkaðra auðlinda náttúrunnar.
Þannig getur þú velt því fyrir þér þegar þú sérð fjallað um vöru eða þjónustu sem sjálfbæra hvort rétt sé farið með hugtakið; er verið að bæta samfélag, efnahag og náttúru til framtíðar? Við getum öll tekið þátt í að gera heiminn sjálfbærari með því að taka okkar skref í að gera samfélag okkar betra, hvort sem það er að stuðla að bættri menntun, betri heilsu, auknu jafnrétti, ábyrgri neyslu eða draga úr kolefnisspori okkar. Virðing fyrir og góð framkoma við samborgarana stuðlar líka alltaf að betra samfélagi og þar af leiðandi sjálfbærni.
Pistill birtur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. febrúar 2019.
Hvernig getur þú sem best lagt þitt af mörkum til að samfélagið nái sjálfbærni? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.