Ég er oft spurð að því hvað fólk eigi eig­in­lega að setja í rusla­tunn­una núna þegar plastið er orðið óvin­ur­inn! Þeirri spurn­ingu get ég ekki svarað því við henni er ekk­ert eitt svar. Lífið væri auðvelt ef við gæt­um haft eitt gilt rík­is­svar fyr­ir alla en sem bet­ur fer er það fjöl­breytt­ara en svo. Staðreynd­in er sú að til þess að við get­um skapað sjálf­bært sam­fé­lag þurf­um við breytta hugs­un og við þurf­um að breyta hegðun okk­ar á okk­ar for­send­um með þessa hugs­un sem verk­færi. Ég þekki ekki alla og get ekki tekið út lífs­stíl hvers og eins, hins veg­ar get ég út­skýrt nokk­ur atriði sem gætu hjálpað þér við að taka næstu skref.

1. Allt er eitt­hvað
Allt sem við not­um, hvort sem það er notað í 30 sek­únd­ur eða 30 ár, er búið til úr auðlind­um með auðlind­um. Auðlind­ir eru hrá­efni, olía, bóm­ull, málm­ar og önn­ur efni, öll sótt úr nátt­úr­unni. Til að geta fram­leitt úr þess­um hrá­efn­um þær vör­ur sem þú vilt nota þarf aðrar vör­ur, líka úr hrá­efn­um. Vél­ar, færi­bönd, umbúðir, vatn, eldsneyti og raf­magn þarf til að fram­leiða all­ar vör­ur og koma þeim til þín.

2. Virðing er lyk­il­orð
Við höf­um byggt upp sam­fé­lag þar sem búið er með mark­viss­um hætti að af­tengja okk­ur frá staðreynd 1. Margt sem við kaup­um er svo ódýrt að okk­ur finnst þetta vera „ekk­ert“ og „ekk­ert mál“ að skipta út og kaupa nýtt. Við sem ein­stak­ling­ar get­um ekk­ert að því gert að sam­fé­lagið hafi ekki lagt verð á þær auðlind­ir sem eru notaðar og það um­hverf­is­spor sem skap­ast af fram­leiðslu. Ein­mitt eru það

oft ódýr­ustu hlut­irn­ir sem valda mest­um skaða þar sem þeir eru fram­leidd­ir við litl­ar um­hverf­is- og ör­yggis­kröf­ur.

Hins veg­ar get­um við borið virðingu fyr­ir því sem við eig­um og ekki síður fyr­ir eig­um annarra. Allt er jú búið til úr sam­eig­in­leg­um potti okk­ar af auðlind­um og þær eru ekki óþrjót­andi. Hvernig ber­um við virðingu? Til dæm­is get­um við farið vel með hluti, sem dæmi end­ist kaffi­vél­in bet­ur ef við þríf­um hana reglu­lega. Fjöl­nota­pok­inn end­ist leng­ur ef við för­um vel með hann, þríf­um hann reglu­lega og leggj­um ekki meira á hann en ætl­ast var til.

3. Neysla og lífs­gæði eru ekki sam­heiti
Umræða um að neysla okk­ar sé vanda­málið er að verða há­vær­ari, og það er rétt. En það þýðir ekki að þú þurf­ir að hætta að kaupa alla skapaða hluti.

Minnk­um neyslu með því að draga úr.

Það má til dæm­is draga úr notk­un á þvotta­efni og þvotta­dufti, töfl­ur í uppþvotta­vél­ar eru marg­falt það magn sem þarf til að disk­arn­ir verði hrein­ir. Eins ætt­um við að eiga fjöl­nota poka en við þurf­um ekki að kaupa nýj­an í hverri ferð.

4. Vertu þú sjálf(ur)
Já, það er kannski skrítið en lyk­il­atriði í sjálf­bærni er að vera maður sjálf­ur, enda

al­gjör­lega ósjálf­bært að þykj­ast vera eitt­hvað annað en maður er.

Hvað þarftu til að geta verið þú? Ef svarið við þess­ari spurn­ingu er: „Að keyra upp á fjalla­bak“ eða „grilla góða nauta­steik“ þá ger­ir þú það. Við þurf­um að end­ur­skoða marga hluti en við þurf­um ekki að byrja á því sem gef­ur okk­ur mest. Dragðu úr fata­neyslu, mat­ar­sóun, kauptu frek­ar inn­lent en inn­flutt ef það eru hlut­ir sem skipta þig minna máli. Ef þú hins veg­ar not­ar bíla bara til að fara frá A til B þá e.t.v. þarftu ekki að vera á stærstu gerð af jeppa. Ef þú elsk­ar góða nauta­steik en finn­ur ekki neinn sér­stak­an mun á græn­met­is­borg­ara og venju­leg­um borg­ara þá má auðveld­lega draga úr neyslu á rauðu kjöti þar án þess að það skerði lífs­gæði þín. Hér þarf hver og einn að finna sína leið og þegar við sjá­um hið stóra sam­hengi hlut­anna get­um við tekið okk­ar eig­in ákv­arðanir á okk­ar for­send­um.

Þannig er með „stóra poka­málið“; við ætt­um öll að vera að nota fjöl­nota poka eft­ir fremsta megni. Ef við hins veg­ar ber­um ekki virðingu fyr­ir fjöl­nota pok­an­um, hend­um hon­um þegar hann verður óhreinn, kaup­um eitt­hvað sem rifn­ar und­an þung­an­um sem við þurf­um að setja í hann, þá er bet­ur heima setið en af stað farið. Þau sem sjá sér ekki fært að hætta að nota plast­poka í ruslið að svo stöddu eru ekki úr leik. Hægt er að draga úr t.d. með því að nota „óhefðbundna“ poka eins og brauðpoka við og við. Við þurf­um öll að stíga skref í átt að sjálf­bæru sam­fé­lagi, af mörgu er að taka og þar gild­ir sem ann­ars staðar „eng­inn get­ur allt en all­ir geta eitt­hvað“.

Pistill birtur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 13.1 2019

Veistu hvernig þú getur lagt þitt af mörkum til að samfélagið nái sjálfbærni? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.