Þá er árið senn á enda og fjölmiðlar keppast við að rifja upp árið, tónlist, hönnun, pólitík eða hvað eina. Um leið og litið er um öxl er spáð til framtíðar. Þá er Facebook búið að koma til skila hver séu merkilegustu augnablik ársins hjá okkur persónulega, enda gerist ekkert merkilegt nema að það sé birt og lækað á Facebook.

Með fyrstu fréttum þessa árs sem er að líða voru fréttir af því hvernig sprengi-glaðir höfuðborgarbúar höfðu, með aðstoð veðurguðanna, náð nýjum hæðum í loftmengum á nýársnótt. Loftmengun sem inniheldur stórskaðleg efni,

svifryk sem er svo fínt að það hefur greiða leið í minnstu pípur lungnanna

og inniheldur, meðal annars, krabbameins valdandi efni. Mikil umræða hefur skapast og nú bjóða Björgunarsveitirnar uppá að skjóta rótum í jörð í stað flugeldum á loft, sem er flott framtak.

Í maí kom út skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar á Íslandi þar sem tekin voru saman niðurstöður rannsókna um afleiðingar hér á landi. Þar kom fram að

loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á lífríki bæði á landi og í sjó og hafa áhrif á atvinnuvegi og samfélag á Íslandi.

Skýrt kom fram hversu mikið vantar uppá rannsóknir varðandi efnið á flestum sviðum á Íslandi svo við getum verið tilbúin þegar á reynir.
Fréttir sumarsins einkenndust af hitabylgjum, uppskerubresti og skógareldum úti í heimi á meðan íbúar suðvesturhornsins sátu í rigningu sem virtist engan endi ætla að taka.

Í september kynnti ríkisstjórn Íslands aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Þar kveður við nýjan tón og munu megin áherslur verða á orkuskipti í samgöngum og átak í kolefnisbindingu.

Í október kom svo út ný skýrsla IPCC um það við hverju megi búast í hlýnandi heimi og sérstaklega bent á þær geigvænlegu afleiðingar sem verða ef hlýnun fer yfir 1,5°C. Þar kom skýrt fram að þeirri hlýnun gæti verið náð 2030 ef við drögum ekki verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Auk þess þarf að gera ráðstafanir til að ráða við þær breytingar sem munu eiga sér stað þrátt fyrir að hlýnunin yrði „bara“ 1,5°C.

Í nóvember voru kynntar niðurstöður alþjóðlegrar könnunar þar sem kom fram að Íslendingar eru meðvitaður um að loftslagsbreytingar, vita að þær eru af mannavöldum en hafa litlar áhyggjur og finna ekki fyrir persónulegri ábyrgð gagnvart vandanum.
Nú í desember fór svo fram Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Póllandi þar sem ríki heims ræddu hvernig ná megi markmiðum Parísarsamkomulagsins. Niðurstaðan var vonbrigði og varnarsigur í senn þar sem betur fór en á horfðist í fyrstu. En ljóst er að við þurfum að gera betur og setja markið hærra eigi ekki illa að fara.

Nú ætla ég ætla að leyfa mér að setja mig í spádómssæti fyrir árið 2019, þó án þess að hafa nokkra völvu hæfileika.

Ég tel að á árinu verði loftslagsfréttir viðamiklar. Afneitun verður áfram vandamál, margir afneita enn að breytingarnar séu af mannavöldum en

enn alvarlegri er sá fjöldi sem afneitar því að geta eitthvað gert

til að sporna við vandanum. Að við séum föst í örlagavef sem aðrir hafa spunnið. Það hryggir mig að hugsa til þess fjölda fólks sem hefur slíka vantrú á sjálfu sér.

Fréttir af afleiðingum loftslagsbreytinga verða augljósar og stórar á árinu eins og þær voru í ár. Met verða slegin í hita, þurrki og úrkomu. Hröð bráðnun jökla og íss á norður og suðurhveli verður áfram í fréttum. Uppskeru brestur, vatnsskortur og fjölgun loftslagsflóttamanna. Það má vera að einhver kalli mig svartsýna, ég er það ekki að eðlisfari, en það verður að segja hlutina eins og þeir eru.

Fréttir af slíkum atburðum eru orðnar reglulegar og á meðan við höldum áfram að auka útblástur gróðurhúsalofttegunda þá munum við áfram sjá fréttir af þeim. Jafnvel þó við hættum alfarið útblæstri í dag mun ástandið versna áður en það fer að batna.

Ég spái ekki bara hörmungafréttum, ónei. Ég spái því að fyrirtæki, sveitafélög og ríki fari í auknum mæli að skoða hvernig þau geta dregið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og kynna sér hvaða gömlu ferlum þau geta breytt til að sporna við sóun á öllum stigum.

Frumkvöðlar munu í auknum mæli stíga fram á sjónarsviðið með nýjar lausnir

að samfélagslegum breytingum sem munu auka lífsgæði okkar og draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Einstaklingar munu, bæði einir og í hópum, finna nýjar lausnir sem henta þeim, einfalda lífið og (aftur) auka sín lífsgæði. Því þetta snýst jú um það, að við aukum lífsgæði okkar, bætum samfélagið um leið og við tökum tillit til náttúrunnar og þess viðkvæma jafnvægis sem ríkir í vistkerfinum heimsins.

Mín ósk fyrir 2019 er að við öll skiljum og trúum því að við skiptum máli.

Að við verðum meira meðvituð um hvað við gerum, hvaða afleiðingar líf okkar hefur og að við tökum ábyrgð á gjörðum okkar. Þetta er hægt um leið og við bætum lífsgæði okkar og samfélagið allt.

Gleðilegt 2019.

Veistu þú hvað þú getur gert til að sporna vil loftslagsvandanum? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.