Hvað er það fyrsta sem þér dettur í hug þegar þú heyrir orðið sóun? Gæti það verið tengt fatnaði sem hægt er að nýta betur, mat, umbúðum, einnota plasti, kaffi í plast- eða álhylkjum eða álíka? Bein sóun á nýtanlegum vörum er sóun á auðlindum jarðar.
En fleira er sóun en bein vannýting á hráefnum.
Að vafra á facebook í klukkutíma getur verið sóun á tíma og hugarró, að sitja yfir seríu á Netflix langt fram eftir nóttu getur verið sóun á dýrmætum svefntíma. Hins vegar getur klukkutími á facebook verið góð leið til að fylgjast með því sem er að gerast í hjá vinum og vandamönnum ef maður hefur ekki gefið sér tíma til þess lengi. Eins getur það að hanga yfir Netflix gefið kærkomna hvíld þegar maður liggur í flensu.
Það sem er sóun hjá einum geta verið lífsgæði hjá öðrum.
Fyrir veganistann er kjöt, mjólk, dúnn og leður algjör sóun og óþarfi. Fyrir margan sælkerann er þetta stór hluti af lífsgæðum hans og hjá mörgum stór hluti menningar okkar. Annað dæmi væri skraut eins og blöðrur og glimmer sem er tilgangslaus sóun fyrir suma en svo eru aðrir sem elska að skreyta og gera sér glaðan dag einmitt með því.
Við þurfum hins vegar að vera meðvituð um hvað skiptir okkur máli og hvað ekki. Hvenær er ég að sóa og hvenær ekki? Allt sem við gerum og skiptir okkur máli ættum við að framkvæma á sem bestan hátt. Til dæmis ef ég ætlaði að vera með blöðrur í afmælinu mínu þá myndi ég passa að hafa ekki of margar, ekkert helíum (sem er takmörkuð auðlind) og sjá til þess að það færi allt í ruslið (eða endurvinnsluna) en endaði ekki í náttúrunni eftir partíið.
Auðlindir jarðar eru það sem við notum til að borða, stunda áhugamál, sinna fjölskyldu, vinna, lifa. Þær eru takmarkaðar en góðu fréttirnar eru þær að við þurfum ekki eins mikið af þeim og við erum að nota.
Þegar við notum hluti sem gefa okkur ekkert erum við að sóa auðlindum.
Til dæmis þegar við pínum eitthvað í okkur sem einhver sagði að væri hollt en okkur finnst vont, þá erum við að sóa auðlindum (ekki þegar við þurfum að breyta um mataræði af heilsufarslegum ástæðum!). Þegar við kaupum eitthvað af því að einhver annar sagði að það væri flott en njótum þess ekki að nota það eða hafa það á heimilinu þá erum við að sóa auðlindum. Við erum ekki öll eins og ættum ekki að vera það.
Þegar við viljum öll nota sömu auðlindirnar setur það umhverfislegan þrýsting á jörðina okkar. Sem dæmi er þegar við stimplum einhverja fæðu sem „ofurfæði“ og viljum þá öll borða endalaust af henni, eins og avocado. Eftirspurnin eftir þeim ávexti hefur aukist svo gríðarlega að farið er að ryðja regnskóga til að rækta þá. Þess vegna ættum við að nota þær auðlindir sem skipta okkur máli en sleppa þeim sem skipta minna máli og dreifa þannig „auðlinda-álaginu“ með fjölbreyttari ræktun o.s.frv.
Gefum okkur andrými til að átta okkur á hver við erum og hvað skiptir okkur máli, svo við getum sleppt óþarfa, því óþarfi er sóun. Þess vegna ættum við að hlusta á aðra, læra og skilja hvað skiptir þá máli í stað þess að dæma um hvað sé óþarfi hjá þeim. Tökum samtalið, lærum hvert af öðru, berum virðingu fyrir aðstæðum, áhugamálum og persónuleikum annarra. Víkkum sjóndeildarhringinn en
vitum hver við erum og hvað skiptir okkur máli.
Þannig minnkum við sóun á hráefnum, á tíma, á okkar persónulegu orku, á auðlindum.
Pistill birtur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. mars 2019.
Veistu hvað skiptir þig máli og hvenær þú ert að sóa og hvenær ekki? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.