Meðvitund um umhverfismál er að aukast í samfélaginu. Við vitum margt í dag sem við vissum ekki í gær. Við vitum að plastmagnið í heiminum er orðið svo óheyrilegt að við fáum í okkur plastagnir með mat og drykk. Við vitum að hitastig í heiminum er að hækka svo hratt að við höfum aðeins um áratug til að draga stórkostlega úr losun gróðurhúsalofttegunda ef ekki á illa að fara. Við vitum að líffræðilegur fjölbreytileiki er í mikilli hættu og að dýr sem við treystum á fyrir afkomu mannkyns eru í útrýmingarhættu svo sem hunangsflugur.
Nú þegar við erum orðin meðvituð um þetta þá er spurningin hvernig við bregðumst við. Margar leiðinlegar tilfinningar fara á flug þegar við lesum um og lærum um þessi mál.
Tilfinningar eins og kvíði, samviskubit, vonleysi, hjálparleysi og reiði.
Við skömmumst út í aðra; hvers vegna eru aðrir ekki að hugsa um þetta líka, hvers vegna sagði mér þetta enginn fyrr, hvers vegna hafa yfirvöld ekki gert eitthvað, hvers vegna… Við reynum að leita auðveldra lausna, einhvers eins sem hefur stór áhrif. Það ætti að banna að: panta af netinu, kaupa vörur frá Asíu, henda mat, borða kjöt. Oft viljum við að samfélagið hætti að gera það sem við erum ekki að gera nú þegar, því það krefst sem minnst af okkur.
Við viljum gera allt fullkomið
og viljum gjarnan bíða með að taka af skarið fyrr en við vitum að það sem við gerum sé algjörlega rétt og þess virði að gera það. Við höldum oft að okkur höndum í stað þess að framkvæma ef ske kynni að þetta yrði enn eitt „Brúneggjamálið“.
Það myndi gera okkur gott að átta okkur á þessu, það er að við erum mannleg, staðan er ekki góð og sannleikurinn er erfiður. Þegar eitthvað er erfitt og vekur með okkur ótta viljum við gjarnan benda á aðra, við viljum að aðrir geri eitthvað stórtækt í málunum því okkur finnst okkar framlag lítils virði. Við reynum að bægja frá okkur tilfinningunum, hver þarf á því að halda að láta bæta ofan á óöryggi og samviskubit í daglegu lífi? Það er víst nægt fyrir.
Þess vegna þurfum við að átta okkur á því að við erum ekki og verðum ekki fullkomin yfir nótt, hvorki sem einstaklingar né sem samfélag. Samfélagið þarf og mun breytast hratt á næstu árum og við munum uppgötva að einhverjar aðgerðir sem farið var í af góðum hug virkuðu ekki sem skyldi en það þýðir ekki að það sé betra að halda að sér höndum.
Til að komast í átt að sjálfbæru samfélagi þurfum við að fara ótroðna slóð,
slóð sem enginn hefur farið áður. Við munum þurfa að vera meðvituð á leið okkar og horfa fram veginn og þegar við sjáum að leiðin sem við völdum endar í ógöngum þurfum við að snúa við og finna nýja leið. Það eru ekki mistök heldur hluti af ferðalaginu. Ef við viðurkennum það í upphafi mun gangan verða betri en annars hefði orðið. Sleppum skömminni og fullkomnunaráráttunni, það þyngir bara bakpokann.
Við berum ekki sök á því hvernig samfélagi við erum alin upp í, við getum ekkert gert að því að hafa ekki vitað betur. En við berum ábyrgð á því hvernig við högum okkur núna þegar við vitum betur. En hvað þýðir það? Þurfa allir þá að hætta að fljúga, keyra og kaupa? Nei.
Góður byrjunarpunktur er að skoða sig. Hvernig líður þér með þetta allt? Trúir þú því að þitt framlag skipti máli? Hvað vekur áhuga þinn? Hvernig kemur þín þekking og reynsla þarna inn?
Með þann leiðarvísi er hægt að leggja af stað í gönguna, skoða, hlusta, læra.
Tökum dæmi. Ertu fag- eða áhugamanneskja um eldamennsku? Hvernig er hægt að nýta mat betur, hvaða matur hefur umhverfisáhrif og hvernig? Ertu í byggingarvinnu? Hvaða byggingarefni hafa minnst umhverfisspor? Hvernig minnkar maður sóun á nýtilegu byggingarefni? Hvernig er best að farga byggingarúrgangi? Þannig má heimfæra spurningar upp á líf okkar. Vafalaust muntu komast að alls konar hlutum sem vekja leiðinlegar tilfinningar en mundu að við ætlum að skoða þetta án samviskubits og fullkomnunaráráttu. Við ætlum að beita forvitni. Við ætlum að skoða þetta með áhuga og forvitni. Vera opin fyrir breytingum og fara í gönguna, eitt skref í einu.
Pistill birtur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 13. apríl 2019
Hvernig getur þú sem best lagt þitt af mörkum til að samfélagið nái sjálfbærni? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.