„Æj, þetta er svo lítið að það skiptir ekki máli í samhenginu.“ er setning sem við notum til að sannfæra okkur sjálf um að það sé í lagi að gera það sem við erum að gera þegar við vitum að við ættum í raun breyta á annan hátt.
Nýlega var birt könnun um viðhorf Íslendinga til loftslagsbreytinga. Þar kom fram að þrír fjórðu Íslendinga eru sannfærðir um að loftslag sé að breytast en að aðeins um þriðjungur hafi áhyggjur af loftslagsbreytingum. Auk þess virðumst við ekki finna til persónulegrar ábyrgðar gagnvart loftslagsbreytingum, að þetta sé ekki okkar vandamál, að við getum lítið gert. Hvað veldur?
Hjálparleysi eða sinnuleysi?
Hvað veldur því að ein ríkasta þjóð í heimi sem jafnframt hefur hæsta kolefnisspor í heimi (auðvitað miðað við höfðatölu) telur að hún beri ekki ábyrgð? Hér skulum við skilja á milli sakar og ábyrgðar. Það er ekki það sama að bera sök og bera ábyrgð. Við getum borið ábyrgð á vandamáli sem við eigum litla eða enga sök á. Getur verið að við teljum okkur ekki bera sök og þar af leiðandi ekki ábyrgð?
Ef það er okkar afstaða getum við þá ætlast til að t.d. Indverjar hætti að brenna kol? Fátæk þjóð sem ekki hefur getað boðið uppá sömu lífsgæði og hér. Getur verið að Íslendingar finni fyrir hjálparleysi vegna smæðar sinnar í alþjóðlegu samhengi? Ein algengasta setning sem ég heyri í minni vinnu er „við erum svo lítil, við leggjum svo lítið til“. Getur verið að þrjúhundruðþúsundmanna þjóðin sem sendi landslið sitt í fótbolta bæði á EM og HM haldi að þau geti ekki látið til sín taka í alþjóðlegu samhengi?
Íslendingar eru fyrirmyndir á alþjóða vettvangi á mörgum sviðum, varðandi endurnýjanlega orku, uppgræðslu lands, jafnrétti kynjanna, nýtingu sjávarafurða og nú síðast fótbolta og liðsheild. Hingað koma fyrirtæki, opinberar nefndir og einstaklingar til að læra af okkur í þessu samhengi, hvers vegna ekki loftslagsmálum? Ferðamenn sem sækja Ísland heim á hverju ári eru margfaldur íbúafjöldi landsins. Skv. könnun sem Íslandsstofa hefur gert er meirihluti ferðamanna sem hingað koma umhugað um náttúru og náttúruvernd. Teljum við að við getum ekki verið fyrirmynd í loftslagsmálum fyrir þá sem hingað koma?
Ef til vill telur íslenskur almenningur að þau hafi engin áhrif. Að við sem einstaklingar getum litlu breytt. Það má vera að við teljum að vandamálið sé svo stórt og yfirgripsmikið að okkar persónulegar gjörðir skipti ekki máli.
Ákvarðanir senda skilaboð
Það er ósköp skiljanlegt að við sjáum ekki hvaða máli það skiptir í stóra samhenginu hvort við veljum íslenskt eða erlent, einnota eða fjölnota, plast eða pappír á því augnabliki sem ákvörðunin er tekin. En lífið er ein lítil ákvörðun sem rekur aðra, litlar ákvarðanir verða vani og „vaninn setti lífsreglurnar mér“ eins og Jónas Sigurðsson syngur.
Að breyta litlum ákvörðunum skiptir máli af því að í þeim felast skilaboð,
skilaboð til þín um hver þú ert og hvað skiptir þig máli, skilaboð til þeirra sem eru þér nærri um það hvernig þú vilt að aðrir hagi sér, skilaboð til framleiðanda og þjónustuaðila um það hvernig vörur og þjónustu þú kýst að sé til boða, skilaboð til samfélagsins um það hvernig samfélagi þú vilt búa í.
Hugsanlega höldum við að við höfum lítil áhrif vegna þess að við erum ekki að taka tillit til þess að við erum fyrirmyndir, við lítum til annarra en gerum okkur ekki grein fyrir að aðrir líta til okkar. Heilinn okkar tengir við það sem er að gerast í kringum okkur. Þess vegna er alltaf einhver sem bítur í súkkulaðið í auglýsingum, af því að við tengjum við það hvort sem við ætlum að gera það eða ekki. Þannig hefur þú áhrif á þitt nærsamfélag, sama hvað þú gerir. Íslendingar hafa forskot í því að verða fyrirmyndir í loftslagsmálum á alþjóðavettvangi. Ísland hefur verið í tísku síðustu ár og er nú þegar tengt náttúru í hugum margra.
Við ættum því að sýna gestum okkar að umhverfismál séu eitthvað sem skiptir Íslendinga máli, að við séum að leggja okkar af mörkum. Ekki af því að sporið okkar sé svo stórt í alþjóðlegu samhengi heldur af því að okkur er ekki sama. Við vitum hvernig fyrirmyndir við viljum vera og erum fyrirmynd viljandi og af ásetningi. Þess vegna skora ég á þig lesandi góður að vera fyrirmynd að því samfélagi sem þú vilt búa í. Munum að íslenska landsliðið vakti aðdáun ekki vegna þess að það var best, heldur vegna þess hve langt góð samvinna og óbilandi trú á verkefninu áorkar.
Pistill birtur í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 2. des. 2018.
Hefur þú tekið ákvarðanir varðandi loftslagsmálin? Komdu á námskeiðið Sjálfbærni og hamingjan og finndu þín réttu skref að sjálfbærni.